MEÐFERÐARAÐILI

Bowentækni

Önnur nöfn
Enska: Bowen technique
Stutt yfirlit
Bowen tækni er líkamsmeðhöndlun þar sem mjúkar en ákveðnar strokur eru  framkvæmdar yfir fyrirfram ákveðnum punktum sem liggja yfir vöðvum,  sinum, liðböndum og bandvef. Þessar hreyfingar valda jákvæðum breytingum  á stoðkerfi og slökun á vöðvum.

Upphafsmaður tækninnar er Ástralinn Tom Bowen (1916-1982) sem  uppgötvaði yfir margra ára tímabil punkta víðsvegar um líkamann sem ef  var ýtt á í ákveðinni röð leiddi það til jákvæðra breytinga á stoðkerfi.  Tom Bowen kenndi nokkrum einstaklingum tæknina sína sem hafa kennt hana  áfram.

Hvernig virkar meðferðin?
Nokkrar kenningar hafa verið settar fram til að útskýra þau áhrif sem  meðferðin hefur. Sumir segja að strokurnar örvi orkuflæði í líkamanum  sem leiðir til heilunar. Aðrir hafa bent á að punktarnir liggja yfir  þekktum sársaukapunktum (trigger points) og nemum á vöðvum sem ef  örvaðir leiða til þess að vöðvar endurstilla sig og í kjölfarið slaknar á  vöðvum.

Hvernig fer meðferðin fram og við hverju má búast?
Bowen meðferðaraðilinn tekur stutta sjúkrasögu til að kynnast vandamáli  viðkomandi til að geta valið hvaða rútínur eru líklegastar að bera  árangur.

Manneskjan liggur á bekk (jafnvel fullklædd) á meðan Bowen  meðferðaraðilinn framkvæmir 2-8 strokur yfir ákveðna punkta, síðan  yfirgefur meðferðaraðilinn herbergið í nokkrar mínútur. Þetta er  endurtekið nokkrum sinnum þangað til líkaminn hefur verið yfirfarinn.  Venjulegur tími tekur 30-45 mínútur og má búast við árangri eftir 2-5  meðferðir. Eftir tíman er mælt með að drekka ríkulega af vatni, taka  stutta göngutúra og forðast mikil átök til að leyfa meðferðinni að hafa  sín áhrif.

Eins og með allar meðferðir er árangur mismunandi og engin trygging er fyrir árangri.

Við hverju hentar meðferðin?
Meðferðin hentar vel fyrir margvísleg stoðkerfavandamál eins og bak- og hálsverki, höfuðverki, vefjagigt og frosna öxl.

Hvernig á að velja meðhöndlara?
Á Íslandi eru haldin námskeið í Bowentækni og eiga þeir sem hafa tekið þau námskeið að geta sýnt fram á skírteini.

Fólk skal varast meðhöndlara sem lofa árangri eða gefa upp ákveðin  árangur t.d. eftir svo og svo margar meðhöndlanir þá mun þetta X ástand  vera svona breytt.

Möguleg vandamál eða aukaverkanir
Bowentækni er örugg meðferð og hefur engar þekktar alvarlegar  aukaverkanir. Ekki er óalgengt að eftir meðferð finni fólk fyrir verkjum  í líkamanum, sérstaklega í gömlum meiðslum. Þessir verkir eru yfirleitt  vísir á að meðferðin er að bera árangur og þeir vara yfirleitt stutt.

Konur ættu að segja Bowen meðferðaraðilanum frá því ef þær eru  ófrískar því sumar rútínur innan meðferðarinnar eru ekki framkvæmdar á  ófrískum konum vegna möguleika á að valda samdrætti.

Heimildir
www.heilsusidan.is
www.wholehealthmd.com
Glósur frá Haraldi Magnússyni osteópata