Hvernig fer meðferðin fram og við hverju má búast?
Hvernig á að velja meðhöndlara?
Möguleg vandamál og aukaverkanir
Íslenska: orkuheilun, reiki
Enska: Energy healing, healing, reiki
Heilun er hugtak sem yfirleitt er notað fyrir meðferð sem er ætlað að hafa áhrif á flæði orku um orkukerfi líkamans. Hugmyndafræðin á bakvið þessa meðferð er að um líkaman flæðir ósýnileg orka um orkubrautir og orkustöðvar sem einskorðast ekki einungis við líkamann heldur flæðir út fyrir hann og myndar orkusvið sem umlykkja hann. Hlutverk meðferðaraðila (heilara) er að finna vanvirkni í orkubrautum, orkustöðvum eða orkusviðum og með handayfirlagningu eða öðrum ráðum koma jafnvægi á orkukerfin sem styðja við heilbrigði einstaklingsins.
Þessi orka, sem oftast er nefnd “lífsorkan” á íslensku ber heitið “qi” í Kína, “ki” í Japan og “prana” á Indlandi.
Heilun er ábyggilega með elstu formum lækninga og er mikilvægur þáttur í indverskum og kínverskum lækningum sem eru ein elstu lækniskerfi í heiminum. Í tímana rás hefur fjöldi aðferða þróast til að hafa áhrif á orkukerfi líkamans.
Orkukerfi líkamans skiptist í nokkra grunnþætti:
Orkubrautir – Lífsorka einstaklingsins flæðir eftir 12 megin orkubrautum (meridians) og með því að stinga eða þrýsta á ákveðna nálastungupunkta á þessum brautum er komið á jafnvægi á orkuflæði einstaklingsins. Það eru 365 aðal nálastungupunktar á orkubrautunum sem tengjast ákveðnum líffærum eða líffærakerfum og hafa það hlutverk að vera samskiptaleið fyrir líffæri líkamans. Hægt er að lesa um nálastungur til að fá ýtarlegri upplýsingar um orkubrautir.
Orkustöðvar – Í ayurveda lækningum er því haldið fram að orkan flæðir upp frá fótum og upp til höfuðs og safnast á mismunandi stöðum í líkamanum sem kallast orkustöðvar. Aðal orkustöðvarnar eru sjö og eru staðsettar upp eftir miðju líkamans, síðan eru 21 smærri orkustöðvar eftir útlimum og fyrir utan líkamann. Ástand hverrar stöðvar speglar ástand ákveðins hlutar líkama þíns auk þess sem andlegt ástand hefur áhrif á þær. Þegar orkustöð er stífluð flæðir ekki orka á heilbrigðan hátt til líkamans og er þá hætta á að líkamlegir og andlegir kvillar myndist.
Orkusvið – Samkvæmt orkufræðunum er líkaminn umlukinn orkusviði í 7 megin lögum. Þetta er það sem stundum er nefnt ára. Hvert svið hefur sinn tilgang, sem dæmi þá eru orkusviðin næst líkamanum líkamssviðið, tilfinningasviðið og andlega sviðið. Líkamlegir kvillar hafa áhrif á líkamssviðið og einnig hafa stíflur í líkamssviði áhrif á líkamann.
Í upphafstíma spyr heilarinn þig spurninga um fyrirliggjandi vandamál. Því næst greinir heilarinn ástand orkuflæðisins, sem hægt er að gera á ýmsa máta eins og finna ástand orku með handayfirlagningu, sjónræn skoðun á orkusviði eða nota pendúl til að nema orkuflæði. Þegar heildarinn hefur gert sér grein fyrir ástandi orkunnar eru notaðar ýmsar aðferðir til að leiðrétta hana. Handayfirlagning er algeng þar sem unnið er með orkuna í gegnum hendur meðferðaraðilans, auk þess sem hægt er að nota kristala, tónkvíslar, nálar eða þrýsting á orkupunkta, ilmolíur og blómadropa eða samtalsmeðferð.
Hefðbundnar kínverskar lækningar, nálastungur, þrýstipunktanudd og svæðameðferð vinna yfirleitt með orkubrautir á meðan handayfirlagning, kristalar, tónkvíslar, ilmolíur og blómadropar vinnur yfirleitt á orkustöðvum og orkusviðum.
Handayfirlagningatími stendur yfirleitt yfir í um það bil eina klukkustund. Árangur ætti að nást á fáum tímum til að minnka streituálag og síðan er hægt fylgja því eftir með reglulegum tímum með lengri millibili. Fyrir erfiðari þráláta sjúkdóma er langtíma meðferð meira viðeigandi og þá oft samhliða öðrum meðhöndlunum.
Eins og með allar meðferðir er árangur mismunandi og engin trygging er fyrir árangri.
Heilun er notuð meðal annars fyrir þráláta spennuhöfuðverki og mígreni, þráláta háls- og bakverki, of háan blóðþrýsting, vægt þunglyndi og kvíða.
Handaryfirlagning hefur reynst árangursrík sem viðbótarmeðferð við venjulega læknismeðferð þar sem heilunin flýtir fyrir bata eftir skurðaðgerðir og slys, minnkar sársauka og stress, hjálpar til við að halda andlegu jafnvægi og ná djúpri slökun.
Sumir nota heilun sem fyrirbyggjandi meðferð þar sem þeir trúa að stíflur í orkuflæðinu séu orsök ýmissa líkamsvandamála.
Þar sem heilun er svo vítt hugtak og hefur ekki verið samræmt að neinu leyti þarftu að finna heilara sem mætir þínum væntingum. Best er að hringja í meðferðaraðila sem þú hefur fundið eða hefur verið mælt með og spyrja um menntun og hvaða aðferðir hann/hún noti við orkuvinnuna.
Þegar orðið heilari er notað kemur flestum í hug þeir heilarar sem nota handayfirlagningu til að heila orkustöðvar eða orkusviðin. Einnig er hægt að leita til meðferðaraðila eins og t.d. nálastungu-, svæðameðferðar- eða þrýstipunktameðferðaraðila til að koma jafnvægi á orku sem flæðir eftir orkubrautum.
Þeir sem hafa ýtarlegustu menntun á handaryfirlögnum eru þeir sem hafa lokið 4 ára námi frá Barbara Brennan school of healing og á Íslandi eru nokkrir einstaklingar búnir með það nám. Á ensku bera þeir titilinn “Brennan Healing Science practitioner”
Einnig getur fólk tekið skipulögð námskeið í handaryfirlögnum sem kallast reiki sem er sett saman af nokkrum stigum og þeir sem ná efsta stigi mega kalla sig reikimeistari.
Flest aðrir meðhöndlarar nota heilun sem hluta af annarri meðhöndlun sem þeir bjóða upp á, t.d. að bjóða upp á ilmolíur fyrir ákveðnar orkustöðvar sem hluti af nuddmeðferð.
Fólk skal varast meðhöndlara sem lofa árangri eða gefa upp ákveðin árangur t.d. eftir svo og svo margar meðhöndlanir þá mun þetta X ástand vera svona breytt.
Heilarar hafa ekki stofnað fagfélag á Íslandi.
Engar alvarlegar aukaverkanir eru þekktar af handayfirlagningum. Fyrir aukaverkanir af öðrum meðferðum er þér bent að skoða viðkomandi meðferð hér á Heilsusíðunni.
Heilari sem vinnur með orku á tilfinningasviði getur vakið upp gamlar erfiðar tilfinningar, í þeim tilvikum getur reynst nauðsynlegt að leita til ráðgjafa eða sálfræðings.
Fólk getur fundið fyrir svima, ógleði eða pirring eftir orkuvinnu sem líður yfirleitt fljótt hjá.