MEÐFERÐARAÐILI

Ilmolíumeðferð

Efnisyfirlit    Önnur nöfn    Stutt yfirlit

Efnisyfirlit

Önnur nöfn

Stutt yfirlit

Hvernig virkar meðferðin?

Hvernig fer meðferðin fram og við hverju má búast?

Við hverju hentar meðferðin?

Hvernig á að velja meðhöndlara?

Möguleg vandamál og aukaverkanir

Önnur nöfn

Íslenska: ilmkjarnameðferð
Enska: aromatherapy, holistic aromatherapy, aromatic medicine

Stutt yfirlit

Ilmolíumeðferð byggir á því að nota ilmolíur (gjarnan kallaðar  ilmkjarnaolíur) til að koma á stað breytingum á skapi eða hafa áhrif á  heilsu. Til eru um það bil 40 mismunandi olíur sem eru notaðar í  ilmolíumeðferð einar og sér eða nokkrar saman. Þar sem ilmolíumeðferð er  einföld og nánast hættulaus er auðvelt fyrir almenning að lesa sig til  um ilmolíur og nota þær til heimilislækninga. Ilmolíufræðingar stunda  sjaldnast ilmolíumeðferð eina og sér heldur nota hana samhliða öðrum  meðferðarformi til að styðja þá meðferð, t.d. nuddari sem blandar  mismunandi olíur til að ná fram mismunandi áhrifum.

Til eru nokkrar leiðir til að nota ilmolíur, það er hægt að blanda þær í  grunnolíur (yfirleitt grænmetisolíur) og bera þær á húð með nuddi. Það  er hægt að nota þær til innöndunar með því að setja þær á heitan flöt  eins og ofn eða í skál yfir kerti, í klút eða á kodda nálægt vitum manns  eða í sérstök ilmdreifitæki. Einnig er hægt að blanda þeim í baðvatn.  Stundum eru ilmolíur notaðar í krem.

Notkun á ilmolíum nær mörg þúsund ár aftur í tímann en þær voru notaðar  í Egyptalandi til forna, Kína og Indlandi. Einnig notuðu Grikkir og  Rómverjar ilmolíur í læknalegum tilgangi. Nútíma ilmolíufræði er eignuð  fransmanninum René Maurice Gattefossé sem var efnafræðingur, en orðið  aromatherapy kemur frá honum.

Hvernig virkar meðferðin?

Það eru nokkrar hugmyndir hvernig ilmolíumeðferðin virkar. Vitað er að  lyktarnemar í nefi senda boð í gegnum lyktartaugina til heilans (í  randkerfið) sem hefur áhrif á tilfinningar, hjartslátt, blóðþrýstinga og  öndun. Sumir segja að áhrifin eru vegna þess að olíurnar séu teknar upp  af líkamanum í gegnum húð og þannig hafi þær áhrif á starfsemi  líkamans.

Hvernig fer meðferðin fram og við hverju má búast?

Hægt er nota ilmolíurnar einar og sér eða með annarri meðferð.  Ilmolíusérfræðingurinn mun spyrja út í sjúkrasögu og gefa ilmolíur í  samræmi við þau vandamál sem gefin eru upp og leiðbeina hvernig á að  nota þær, hvort eigi að nota þær til innöndunar, á húð eða í bað. Í  sumum tilfellum er ilmolíumeðferðin hluti af nuddmeðferð.

Einnig eru til þeir meðhöndlarar sem nota ilmolíur til að hafa áhrif á orkustöðvarnar.

Eins og með allar meðferðir er árangur mismunandi og engin trygging er fyrir árangri.

Við hverju hentar meðferðin?

Almennt eru ilmolíur notaðar til að hjálpa fólki með þráláta verki,  ógleði, standast álag, þunglyndi og til að skapa vellíðan. Einnig halda  ilmolíufræðingar fram að hægt er að nota ilmolíur til að vinna á móti  bakteríu- og vírussýkingum, örva ónæmiskerfið, vinna á kvefi, flensum og  hálsbólgu, auka blóðflæði og hafa jákvæm áhrif á blöðrubólgu,  unglingabólur, höfuðverki, fyrirtíðarspennu, meltingartruflanir og  vöðvaspennu.

Dæmi um notkun á ilmolíum fyrir ákveðin vandamál:

Eucalyptus og wintergreen til að létta á stíflum
Jasmin oil til að létta á þunglyndi
Lavender oil til að minnka hræðslu, kvíða og til að bæta svefn
Lemon, orange og aðrar sítrus olíur til að bæta skap og auka einbeitingu
Pepperment oil til að minnka ógleði og hjálpa meltingu
Rosemary oil til að létta á sársauka og slaka á vöðvum

Hvernig á að velja meðhöndlara?

Þú getur annað hvort lesið þig sjálf(ur) til um ilmolíur til eigin nota  eða leitað til fagmanns sem hefur tekið námskeið í ilmolíufræðum.

Hægt er að leita til Aromatherapyfélags Íslands sem birtir félagatal  sitt og einnig geta aromatherapistar skráð sig í Bandalag íslenskra  græðara sem birtir skráða aromatherapista á heimasíðu sinni.

Fólk skal varast meðhöndlara sem lofa árangri eða gefa upp ákveðin  árangur t.d. eftir svo og svo margar meðhöndlanir þá mun þetta X ástand  vera svona breytt.

Möguleg vandamál eða aukaverkanir

Ilmolíumeðferð er almennt örugg. Ilmolíur eru ekki ætlaðar til  innvortis inntöku og eru sumar olíur eitraðar ef þær eru teknar inn.  Einnig geta ilmolíur valdið í sjaldgæfum tilfellum höfuðverkjum, ógleði  og ofnæmisviðbrögðum, sérstaklega er meiri hætta á ofnæmisviðbrögðum ef  óblandaðar ilmolíur eru bornar á húð sem almennt er ekki æskilegt. Góð  leið til að prufa hvort manneskja þoli ilmolíu á húð er að blanda hana í  grænmetisolíu og setja nokkra dropa á húð og plástur yfir og láta hana  liggja á húðinni í 24 tíma, ef þetta veldur engum útbrotum er þér óhætt  að nota viðkomandi olíu. Ef útbrot myndast þarftu að nota aðra olíu. Þú  þarft einnig að hætta notkun á ilmolíu ef þú færð aukaverkanir af henni  eftir að hafa notað hana í einhvern tíma.

Ef þú ert ófrísk er best að fá fagmann til að ráðleggja þér varðandi  notkun á ilmolíum nema þú sért fróð um notkun þeirra þar sem sumar eru  sagðar geta valdið skaða á fóstri eða valdið fósturláti ef teknar  innvortis og jafnvel, þó ólíklega, ef notaðar útvortis. Eftirfarandi  olíur eru varasamar fyrir ófrískar konur, basil, thyme, clary sage,  calamus, mugwort, pennyroyal sage, rosemary, juniper og wintergreen.

Heimildir

www.wholehealthmd.com
www.cancer.org
Glósur frá Haraldi Magnússyni osteópata