MEÐFERÐARAÐILI

Nuddmeðferð

Önnur nöfn
Íslenska: heilsunudd, klassískt nudd, sjúkranudd, sogæðanudd, íþróttanudd
Enska: massage, massage therapy, Swedish massage, sports massage, deep  tissue massage, myotherapy, therapeutic massage, neuromuscular therapy,  trigger point massage, trigger point therapy

Stutt yfirlit
Nudd er handfjöllun mjúkvefja líkamans (vöðvar, skinn, sinar, liðbönd og  bandvefur) og hinn óbeina handfjöllun vökva líkamans í blóðrásar- og  sogæðakerfi. Til er fjöldinn allur af nuddmeðferðum eins og sænskt nudd,  íþróttanudd, sjúkranudd, svæðameðferð, shiatsu, rolfing til að nefna fá  dæmi. Nudd, óháð meðferð, hefur þann tilgang að mýkja vöðva og ýta  undir slökun. Í nuddi notar meðferðaraðilinn hendurnar (og stundum aðra  líkamshluta eins og framhandlegg eða olnboga) til að ýta við mjúkvefjum  líkamans. Nuddið getur verið frá mjúkum og grunnum strokum til harðra og  djúpra, stöðugan samfelldan þrýsting til hraðs banks. Val á nuddi fer  eftir ástandi og þörf einstaklingsins sem og menntun og reynslu  nuddarans.

Til eru kínverskir textar frá 2700 fyrir Krist sem mæla með nuddi  fyrir ýmsum vandamálum og var nudd notað í mörgum fornum samfélögum.  Hippókrates, faðir læknisvísindanna, skrifaði árið 400 fyrir Krist um  mikilvægi þess að allir læknar notuðu nudd sem lækningu fyrir íþrótta-  og stríðsmeiðsli.

Upphaf nútímanudds, þess sem byggt er á vísindalegum athugunum, er  rakið til Svíans Per Henrik Ling (1776-1839) sem þróaði meðferð sem  innihélt bæði nudd og æfingar. Sænskt nudd (oft kallað klassískt nudd  hér á landi) sem er algengasta nuddformið í hinum vestræna heimi er frá  honum komið.

Tveir læknar, bræðurnir George og Charles Taylor frá New York kynntu  nuddmeðferð í Bandaríkjunum rétt eftir 1850 fyrir öðrum læknum. Nudd var  almennt notað af læknum þar þangað til að þeir snéru sér að notkun  lyfja og annarrar hátækni snemma á tuttugustu öldinni.

Árið 1940+ þróaði læknirinn Janet Travell og félagar hennar  triggerpunktameðferð, en losun á triggerpunktum er stór hluti í mörgum  nuddmeðferðum.

Stöðugt bætast við nýjar nuddmeðferðir og nudd heldur áfram að vera  ein vinsælasta meðhöndlunin sem fólk leitar til fyrir líkamlega sem  andlega slökun.

Hvernig virkar meðferðin?
Flestar nuddaðferðir virka á sama máta. Þegar vöðvar eru stífir eða  búnir að þola of mikið álag veldur það uppsöfnun úrgangsefna eins og  mjólkursýru sem veldur særindum, auknum stífleika og jafnvel  vöðvakrömpum. Nudd eykur blóð- og sogæðaflæði sem eykur í kjölfarið  flæði súrefnis og næringu til vöðva. Þetta hjálpar til með að skola út  úrgangsefni og flýtir fyrir bata.

Stífir vöðvar geta einnig þrýst á æðar og taugar sem þrengir að  blóðflæði og veldur sársauka. Nudd getur slakað á vöðvum sem léttir  álagið á æðum og taugum.

Til viðbótar þá hefur verið sýnt fram á að nudd auki framleiðslu  endorfína sem hafa það hlutverk að minnka sársauka og serótínína sem  valda vellíðan. Nudd getur einnig minnkað framleiðslu stresshormónsins  kortísól.

Hvernig fer meðferðin fram og við hverju má búast?
Hvernig meðferðin fer fram fer eftir hvort þú sækir meðferð hjá  heilsunuddara eða sjúkranuddara. Sjúkranuddari er menntaður til að taka  ýtarlegri sjúkrasögu til að vinna með vandamál á meðan afslöppunarnudd  hjá heilsunuddara þarfnast ekki ýtarlegrar sjúkrasögu þótt að  heilsunuddarinn mun spyrja stuttlega um hvers þú óskar af nuddinu og  hvort það séu einhver fyrirliggjandi vandamál.

Meðferðin fer yfirleitt fram á nuddbekk og nuddþeginn afklæðist yfirleitt að undirfötum og leggst undir lak sem hylur hann.

Hvernig nuddið fer fram fer einnig eftir því hvernig nuddi er óskað  eftir eða nuddarinn hefur valið til að vinna á fyrirliggjandi vandamáli.  Hér verða tekin fyrir nokkur dæmi um algeng nudd, en í dag eru til um  80 mismunandi nuddmeðferðir. Það skal tekið fram að algengt er að  nuddarar blandi saman mörgum nuddtæknum.

Klassískt nudd notast við langar strokur, hnoð, núning, bank og víbríng. Sænskt nudd er gott dæmi um klassískt nudd

Handfjöllunar nudd  notar dýpri aðferðir svo sem djúpnudd sem er ætlað að ná til sina,  liðbanda, bandvef, taugavefs og er ætlað að losa um triggerpunkta.  Íþróttanudd fellur undir þennan flokk, en það er sambland af klassísku  nuddi og djúpvöðvanuddi með þarfir íþróttafólks í huga.  Triggerpunktanudd er sambland af nuddi og teygjum sem notast við djúpan  þrýsting til að losa um triggerpunkta.

Bandvefsnudd er  djúpt nudd sem leggur áherslu á að losa um bandvef líkamans. Undir þetta  myndi falla meðferðir eins og rolfing og heller meðhöndlun sem líta  ekki á sig sem nuddara heldur sérstaka meðferð sem hefur það markmið að  endurmóta bandvefi líkamans með það í huga að breyta og bæta  líkamsstöðu.

Austurlenskt nudd  vinnur með stoðkerfið til að losa um stíflur og auka flæði lífsorkunnar  um orkubrautir líkamans með því að ýta á orkupunkta líkamans. Dæmi um  svona nuddaðferðir eru shiatsu, tælenskt nudd, acupressur og tui-na.  Einnig byggir svæðameðferð á svipaðri hugmyndafræði þar sem  þrýstipunktanudd er framkvæmt til að hafa áhrif að ýmis líffæri líkamans  í gegnum mismunandi orkubrautir.

Eftir meðferð má viðkomandi búast við því að finnast vera lausari og  mýkri í vöðvum og afslappaðri. Sársaukapunktar geta verið vægari og  almennir verkir minni. Einnig er ekki óalgengt að finna aukin óþægindi á  svæðum sem voru nudduð en það líður yfirleitt fljótt hjá og vöðvar enda  mýkri og afslappaðri.

Ef þér líður illa í nuddinu eða nuddið er of harðhent skaltu láta  nuddarann vita sem ætti að aðlaga nuddið að þínum þörfum. Hefðbundin  nuddmeðferð varir í 30 til 90 mínútur. Fjöldi meðferða fer eftir ástandi  vandamáls. Léttvægt vöðvastífelsi og vandamál geta þurft einungis 1-3  meðferðir á meðan þrálát vandamál gætu þurft endurteknar heimsóknir.  Algengt er að fólk fari í nudd með reglulegu millibili (4-12 vikna  fresti) til að halda niðri vöðvastífleika sem er algeng aukaverkun  einhæfra starfa sem og skrifstofuvinnu.

Eins og með allar meðferðir er árangur mismunandi og engin trygging er fyrir árangri.

Við hverju hentar meðferðin?
Nudd er viðeigandi meðferð við fjöldann allan af stoðkerfavandamálum sem  og til andlegrar slökunar. Viðeigandi er að fara í nudd sem dæmi vegna  krónískra verkja, til að lækka blóðþrýsting sem orsakast af stressi,  bakverkja, létta á vefjagigt, þráláta hægðartregðu, minnka harðsperrur,  minnka einkenni af krabbameini eða krabbameinsmeðferðar, létta á  einkennum MS og vegna höfuðverkja.

Hvernig á að velja meðhöndlara?
Eins og sést hér að ofan nær orðið nudd yfir margar mismunandi  meðferðir. Ef leitað er eftir hinu hefðbundna nuddi þá stendur valið um  heilsunuddara eða sjúkranuddara. Þó svo að þessar tvær stéttir nota sömu  aðferðir í mörgum tilfellum er munur á milli þessara stétta. Sjúkranudd  er ýtarlegra nám og miðast við að hjálpa fólki með klínísk vandamál á  meðan heilsunudd er meira miðað við nudd á heilbrigðu fólki með almenna  líkamlega og andlega slökun að markmiði. Sjúkranuddarar eru löggild  heilbrigðisstétt á meðan heilsunuddarar eru skráðir græðarar. Það er  erfitt að gera upp á milli þessara stétta en til einföldunar má segja að  því umfangsmeira sem vandamálið er ertu líklega í betri höndum hjá  sjúkranuddara á meðan almenn slökun er sérsvið heilsunuddarans.

Þar sem nudd er svo vítt hugtak þarftu að finna nuddara sem mætir  þínum væntingum. Best er að hringja í meðferðaraðila sem þú hefur fundið  eða hefur verið mælt með og spyrja um menntun, hvaða aðferðir hann/hún  noti og reynslu viðkomandi á því sviði sem þú hefur vandamál.

Fólk skal varast meðhöndlara sem lofa árangri eða gefa upp ákveðin  árangur t.d. eftir svo og svo margar meðhöndlanir þá mun þetta X ástand  vera svona breytt.
Möguleg vandamál eða aukaverkanir
Ekki skal þiggja nudd ef viðkomandi er með bláæðabólgur eða blóðtappamyndanir (eða grun um blóðtappa).

Forðast skal opin sár, brunasár og sýkingar í húð.

Fólk sem er með lágt storknunargildi eða eru að taka blóðþynningarlyf geta auðveldlega fengið marbletti.

Varasamt getur verið að þiggja nudd ef viðkomandi er með ýmsar  gigtar, krabbamein (sérstaklega beinkrabbamein) eða hjartasjúkdóma.  Vertu viss um nuddarinn kunni að meðhöndla viðkomandi ástand og þekki  sín takmörk.
Heimildir
www.heilsusidan.is
www.wholehealthmd.com
www.cancer.org
Glósur frá Haraldi Magnússyni osteópata